Skapandi tækni

Frábærir atvinnumöguleikar eftir skemmtilegt og lifandi nám

K
vikmyndataka, klipping, hljóðvinnsla og myndbreyting (vfx) eru tæknilegar grunnstoðir allrar kvikmyndagerðar. Í þessu 120 eininga diplómunámi (2 ár) öðlast nemendur hæfni í þessum fjórum greinum. Einstakt nám, praktísk, verðmæt og eftirsótt menntun í hraðvaxandi kvikmynda- og sjónvarpsiðnaði.

Námið er að stærstum hluta verklegt þar sem nemendur vinna fjölmörg verkefni um leið og þeir læra sérgreinar deildarinnar. Kennarar eru allt starfandi fagfólk í kvikmyndagerð.

Leiðir að loknu námi eru fjölbreyttar. Margir hefja störf innan íslenska kvikmynda- sjónvarps- og samfélagsmiðlaiðnaðarins á meðan aðrir hefja sinn eigin rekstur eða halda utan til framhaldsnáms..

Kynntun þér námskeið deildarinnar í námskrá.

Fagstjórar Skapandi Tækni

Davíð Alexander Corno

Fagstjóri Klippingar
hefur starfað við kvikmyndagerð í næstum áratug, fyrst og fremst sem klippari, en þó einnig sem leikstjóri, kvikmyndatökumaður og önnur störf á setti. Hann hefur klippt sínar eigin heimildamynd (7 ár), allar myndir Benedikts Erlingssonar í fullri lengd (Hross í oss, Show of Shows og Kona fer í stríð), fleiri myndir í fullri lengd (Sumarbörn, Undir Halastjörnu) og er eins og stendur að klippa heimildarmyndirnar 3. póllinn, (í leikstjórn Andra Snæs Magnasonar og Anní Ólafsdóttur) og 14 ár (sem hann leikstýrir sjálfur ásamt Áslaugu Einarsdóttur).
Tómas Örn Tómasson

Fagstjóri kvikmyndatöku
hefur tengst kvikmyndagerð allt frá því hann var í Verzlunarskóla Ísland. Eftir útskrift þaðan fór hann í Háskóla Íslands og Köbenhavn Universitet, þar sem hann lagði stund á sagnfræði. Samhliða náminu tók hann að sér alla þá vinnu sem bauðst og tengdist kvikmyndatöku. Tómas sá fyrir sér að gerast heimildamyndagerðarmaður, þar sem hann myndi skrifa, kvikmynda og leikstýra eigin verkum. Þegar hann kom heim úr námi sumarið 1996, bauðst honum ýmis vinna tengd kvikmyndagerð. Það var síðan árið 2002 að hann ákvað að snúa sér alfarið að kvikmyndatökunni. Á heimasíðu Tómasar er starfsreynsluágrip og tenglar í helstu verkefnin sem hann hefur kvikmyndað. www.tomastomasson.com
Kjartan Kjartansson

Fagstjóri Hljóðs
er einn af reyndustu hljóðmönnum landsins. Hann hefur annast hljóðsetningu á mörgum af frægustu bíómyndum íslenskrar kvikmyndasögu, og eru verk á borð við Sódómu Reykjavík, Myrkrahöfðingjann og Engla Aleimsins þar á meðal.
Sigurgeir Arinbjarnarson

Fagstjóri Myndbrellna
hefur unnið við myndbrellur síðan hann útskrifaðist frá Margmiðlunarskólanum árið 2014. Á þeim tíma hefur hann tekið þátt í að skapa fjölda af vel þekktra auglýsinga, sjónvarpsþátta og kvikmynda og fyrir þá vinnu fengið nokkrar Eddu og Lúðurs tilnefningar. Hann hefur unnið fyrir framleiðslur eins og Amazon, Netflix, CBS, Syfy, Viaplay, Sagafilm, og RVK Studios svo fátt sé nefnt.
Námskeið
Kvikmyndataka 1 | KVM 104

Námskeiðið er bæði fræðilegt og verklegt. Í fræðilega hlutanum er fjallað um kvikmyndatöku og lýsingu, gerð og uppbyggingu kvikmyndatökuvélarinnar, ólík upptökuform, linsufræði og filtera og fleira er lýtur að tökuvélinni. Þá er fjallað um ljós og lampabúnað, ljóshita og ljósmælingar og ýmsar grunnreglur sem liggja að baki lýsingu. Í verklega hlutanum vinna nemendur síðan ýmsar æfingar í stúdíói, þar sem áhersla er lögð á að þeir nái að sannreyna þá fræðilegu þekkingu sem þeir hafa öðlast.

Hljóð 1 | HLE 104

Námskeiðið er bæði fræðilegt og verklegt. Grunnhugtök hljóðeðlisfræðinnar eru útskýrð fyrir nemendum. Þá er upptökukeðjan útskýrð ásamt þeim tækjum sem þar koma við sögu. Nemendur vinna ýmis hljóðverkefni um leið og þeir læra á hljóðvinnsluforrit.

Klipping 1 | KLM 104

Fjallað er um stöðu og starfssvið klipparans. Í upphafi námskeiðsins er farið ítarlega yfir tæknilega þætti klippiforritsins. Síðan vinna nemendur ýmis klippiverkefni þar sem áhersla er lögð á að nemendur öðlist skilning á því hlutverki klipparans að endurskrifa sögur út frá efni sem liggur fyrir. Nemendur fá einnig innsýn í starfssvið aðstoðaraklippara með áherslu á skipulag, merkingar og skráningu efnis.

Myndbreyting 1 | MBR 102

Sögulegur inngangur þar sem myndbrellur úr kvikmyndasögunni eru skoðaðar. Jafnframt er skoðað það nýjasta sem er að gerast í myndvinnslu kvikmynda. Kynnt eru myndvinnslu- og grafíkforrit sem eru mikilvæg í iðnaðinum í dag, Photoshop, After Effects, Premiere Pro og Da Vinci. Skýrður er munur á tvívídd „2D“ og þrívídd „3D“ og sýnt hvernig sjónrænar brellur geta verið bæði sýnilegar og ósýnilegar. Á námskeiðinu er lögð áhersla á að nemendur nái góðu valdi á Photoshop-forritinu.

Lokaverkefni 1. önn | LOH 106

Lokaverkefni á 1. önn er frjálst frumsamið kvikmyndaverk, 5 til 8 mín. Verkefnið þarf að vera skráður hugmynda- og hönnunarferill sem leiðir að fyrirfram settu markmiði. Verkefnið er einstaklingsverkefni. Það getur verið tengt vinnu við mynd annars nemanda en slíkt samstarf verður að fá samþykki kennara og framlagið verður að vera skýrt og mælanlegt.

Tæki og tækni 1 | TÆK 106

Námskeiðið er byrjunarnámskeið á 1. önn og markmið þess er að kenna nemendum grunnatriði í framleiðslu kvikmynda og meðhöndlun og notkun tækja- og tæknibúnaðar í kvikmyndagerð. Jafnframt er farið yfir grunnatriði myndmálsins.

Samstarf milli deilda | SAM 102

Nemendur í öllum deildum þurfa á hverri önn að skila 1 einingu í samstarfi við aðrar deildir. Markmiðið er að hver deild hafi aðgengi að öllum hinum og upp úr því þróist skapandi samband.

Kvikmyndasaga 1 | KMS 102

Helstu kvikmyndir sögunnar kynntar, sýndar og ræddar. Sýndar eru tíu myndir á hverri önn, alls 40 kvikmyndir. Hver önn er hugsuð sem sneiðmynd af sögunni. Myndirnar eru sýndar að mestu í tímaröð og ná allt frá þögla tímabilinu og fram á seinni hluta tuttugustu aldar.

Kvikmyndataka 2 | KVM 204

Á námskeiðinu er aðalverkefnið að segja sögu í myndum. Nemendur fá skrifaðar sögur sem þeir þurfa að yfirfæra í myndmál, án orða. Mikil áhersla er lögð á vandaðan undirbúning og að nemendur vinni meðvitað með aðferðir og stíl.

Hljóð 2 | HLE 205

Nemendur á 2. önn fá kennslu í notkun fjölrása hljóðupptökutækis, þráðlausra hljóðnema og þeirra tækja sem koma við sögu við hljóðupptökur á setti. Nemendur sjá alfarið um hljóðupptöku í upptökum á sjónvarpsmynd („pilot“) sem er samvinna allra sviða. Nemendur sjá einnig um hljóðvinnslu bíólingsins þar sem margir þættir koma við sögu, s.s. upptaka á „hljóðeffektum“, „ADR“ og „foley“.

Klipping 2 | KLM 204

Fjallað er um listina að klippa og nemendur fá fræðilega yfirsýn yfir sögu klippilistarinnar, strauma og stefnur. Nemendur vinna jafnframt ýmis verkefni þar sem áherslan er lögð á að endursegja sögur út frá efni sem liggur fyrir. Sýndar eru aðferðir hvernig hægt er að hafa áhrif á áhorfendur með því að nota mismunandi klippistíla. Nemendur kafa dýpra inn í klippiforritið og farið er yfir hraðabreytingar, grafíkvinnslu og litaleiðréttingu. Nemendur klippa verkefni þar sem fjölkameruklipping er þungamiðjan.

Myndbreyting 2 | MBR 204

Nemendum er veitt innsýn í forritið After Effects. Farið er yfir viðmót og helstu eiginleika forritsins. Aðaláherslan er lögð á hreyfanlega grafík í hvers kyns titlagerð og hvernig lykilrammi „key-frame“ er notaður í grafískar hreyfimyndir. Nemendur vinna ýmis verkefni og markmiðið er að þeir öðlist hæfni til að nýta sér þá möguleika sem forritið býður upp á.

Leikmynd | LEB 104

Nemendur á 2. önn fá innsýn inn í starf leikmyndahönnuðar ásamt því að vinna við leikmyndagerð í sjónvarpsmynd (LSJ) sem er samvinna allra deilda.

Listasaga 1 | LIS 102

Yfirlitsáfangi með áherslu á tengsl kvikmynda og myndlistar. Hvað geta kvikmyndir lært af myndlistinni? Einkenni ýmissa myndlistartímabila eru skoðuð. Dæmi eru tekin úr kvikmyndasögunni sem sýna náin tengsl kvikmynda við ákveðin myndverk eða myndlistarmenn, og hvernig myndlist hefur nýst kvikmyndagerðarmönnum og orðið þeim innblástur fyrir kvikmyndaverk.

Tæki og tækni 2 | TÆK 204

Námskeiðið er framhaldsnámskeið frá TÆK 106. Markmiðið er að styrkja enn frekar grunnþekkingu nemenda á helstu sviðum kvikmyndagerðar. Hver nemandi gerir síðan mynd sem á að sýna persónulegan stíl og færni nemanda á hans áhugasviði. Myndin á að geta staðið sem kynningarmynd um nemandann.

Samstarf milli deilda | SAM 201

Nemendur í öllum deildum þurfa á hverri önn að skila 1 einingu í samstarfi við aðrar deildir. Markmiðið er að hver deild hafi aðgengi að öllum hinum og upp úr því þróist skapandi samband.

Kvikmyndasaga 2 | KMS 202

Helstu kvikmyndir sögunnar kynntar, sýndar og ræddar. Sýndar eru tíu myndir á hverri önn, alls 40 kvikmyndir. Hver önn er hugsuð sem sneiðmynd af sögunni. Myndirnar eru sýndar að mestu í tímaröð og ná allt frá þögla tímabilinu og fram á seinni hluta tuttugustu aldar.

Kvikmyndataka 3 | KVM 306

Á námskeiðinu er farið dýpra í ýmsa fræðilega þætti kvikmyndatöku, linsufræði, ljósfræði og filtera. Nemendur gera verkefni/heimildarmynd þar sem þeir taka upp prufur og móta stíl myndar. Kynnt er skipulag og almennir verkferlar tengdir kvikmyndatöku á stóru verkefni. Nemendur starfa í kvikmyndatökudeild í tökum á leikinni sjónvarpsmynd (pilot) sem er samstarfsverkefni allra deilda (LSJ 105) og er unnin undir handleiðslu fagmanna.

Hljóð 3 | HLE 304

Nemendur öðlist skilning á þeim hughrifum sem hægt er að ná fram hjá áhorfendum kvikmynda með hljóðrás og hvernig nýta má þau áhrif til að styðja við og bæta við myndræna frásögn. Skoðuð verða dæmi úr kvikmyndum og þau greind út frá dramatík í frásögn. Nemendur búa til hljóðfrásögn án myndar í hljóðforriti (ProTools). Þeir hljóðvinna atriði teiknimyndar og talsetja hana með leikurum í samstarfi við leiklistardeild. Nemendur gera skýrslu þar sem þeir greina vinnu sína við verkefnin.

Klipping 3 | KLM 305

Námskeiðið tengist útskriftarverkefni nemenda. Í upphafi er upprifjun á ýmsum þeim þáttum sem kennd hafa verið á fyrri námskeiðum. Nemendur þurfa svo að standast próf sem staðfestir þekkingu þeirra og hæfni. Nemendur klippa síðan lokamynd sína í þessu námskeiði og njóta fulltingis og aðstoðar leiðbeinanda í því ferli. Leiðbeinandi skal sjá um að klippinu sé gefin sú árvekni og yfirferð sem öll fagleg klipp þurfa að ganga í gegnum.

Myndbreyting 3 | MBR 304

Nemendur læra skjásamsetningar í After Effects. Farið er yfir hvernig hægt er að blanda skotum saman og mynda eina heild. Kennt er hvernig blöndun lykilmyndar við bakgrunn fer fram („green screen“). Nemendur læra að „tracka“ skot og kennd eru grunnatriði í Roto-forritinu. Þrívíddartökuvél og vinna með „3D layers“ eru skoðuð lauslega. Nemendur taka upp efni og eftirvinna í After Effects. Nemendur fá fyrirlestur um önnur eftirvinnsluforrit s.s. Nuke og Maya. Þá læra þeir undirstöðu í litafræði og litgreina sjónvarpsmynd (LSJ105) í litvinnsluforriti.

Handritsgerð | HHÖ 102

Á námskeiðinu er fjallað um ýmis grundvallarlögmál hefðbundinnar handritsgerðar í kvikmyndagerð. Fjallað verður um uppbyggingu, form og stíl, samtöl, söguþráð og endi. Nemendur læra helstu grundvallaratriði í notkun á handritsforritum. Þeir nemendur sem áhuga hafa á að skrifa sjálfir handritið að lokaverkefni sínu á 4. önn geta nýtt þetta námskeið til undirbúnings.

Myndmál og meðferð þess | MYN 104

Fjallað er um myndmál og myndbyggingu með því að skoða og skilgreina atriði úr kvikmyndum frá ýmsum tímum. Í samráði við leiðbeinendur sviðsetja nemendur senu úr kvikmynd og skoða hvernig myndmálið hefur áhrif á framgang hennar og upplifun áhorfandans á henni.

Samstarf milli deilda | SAM 303

Nemendur í öllum deildum þurfa á hverri önn að skila 1 einingu í samstarfi við aðrar deildir. Markmiðið er að hver deild hafi aðgengi að öllum hinum og upp úr því þróist skapandi samband.

Kvikmyndasaga 3 | KMS 302

Helstu kvikmyndir sögunnar kynntar, sýndar og ræddar. Sýndar eru tíu myndir á hverri önn, alls 40 kvikmyndir. Hver önn er hugsuð sem sneiðmynd af sögunni. Myndirnar eru sýndar að mestu í tímaröð og ná allt frá þögla tímabilinu og fram á seinni hluta tuttugustu aldar.

Kvikmyndataka 4 | KVM 403

Námskeiðið tengist útskriftarverkefni nemanda. Í upphafi er upprifjun á ýmsum fræðilegum og tæknilegum þáttum sem kenndir hafa verið á fyrri námskeiðum. Nemendur þurfa að þreyta skriflegt og verklegt próf sem staðfestir hæfni þeirra. Á námskeiðinu skulu nemendur vinna undirbúningsvinnu fyrir tökur á lokamynd, ákveða tökustíl, gera prufur, skotlista eða gólfplön þannig að þeir séu vel undirbúnir fyrir tökurnar. Nemandi skal leggja fram undirbúningsgögn til mats. Nemandi stjórnar síðan upptökum á lokaverkefni sínu og kvikmyndatakan er metin til einkunnar.

Hljóð 4 | HLE 403

Námskeiðið tengist útskriftarverkefni nemenda. Í upphafi er upprifjun á ýmsum fræðilegum og tæknilegum þáttum sem kenndir hafa verið á fyrri námskeiðum. Nemendur þurfa að þreyta skriflegt og verklegt próf sem staðfestir hæfni þeirra. Áður en nemendur fara í tökur á lokaverkefnum sínum er stutt upprifjun á því sem helst þarf að hafa í huga á tökustað og nemendur fá tækifæri til að bera fram spurningar varðandi verkefni sín undir leiðbeinanda. Stærsti hluti námskeiðsins fer síðan í hljóðvinnslu lokaverkefnis þar sem leiðbeinandi er hverjum og einum til halds og trausts og nemendur geta fengið þá aðstoð og ráð sem þeir biðja um. Sé nemandi ekki með lokaverkefni sem getur tengst þessum áfanga skal hann í samráði við leiðbeinanda hljóðvinna verkefni sem getur borist utan frá eða frá öðrum sérsviðum og skal þá uppfylla mat leiðbeinanda varðandi hæfni og kröfur.

Klipping 4 | KLM 404

Námskeiðið tengist útskriftarverkefni nemenda. Í upphafi er upprifjun á ýmsum þeim þáttum sem kennd hafa verið á fyrri námskeiðum. Nemendur þurfa svo að standast próf sem staðfestir þekkingu þeirra og hæfni. Nemendur klippa síðan lokamynd sína í þessu námskeiði og njóta fulltingis og aðstoðar leiðbeinanda í því ferli. Leiðbeinandi skal sjá um að klippinu sé gefin sú árvekni og yfirferð sem öll fagleg klipp þurfa að ganga í gegnum.

Myndbreyting 4 | MBR 403

Námskeiðið er tengt útskriftarnámskeiði nemandans, LHÖ 208. Í upphafi er upprifjun á þeim atriðum sem kennd hafa verið á fyrri námskeiðum. Nemendur þurfa að þreyta próf sem staðfestir hæfni þeirra. Nemandi litgreinir, vinnur titla og myndbrellur í lokamynd sinni. Myndvinnslan er metin sérstaklega til einkunnar. Leiðbeinandi er til halds og trausts í vinnsluferlinu.

Framleiðsla | FRT 102

Nemendur sækja námskeið í framleiðslu kvikmynda. Áfanginn á að nýtast nemendum við undirbúning útskriftarverkefnis. Námskeiðinu er fylgt eftir með vikulegum fundum þar sem nemendur framleiða sína eigin mynd með það að markmiði að tökur gangi sem best fyrir sig.

Lokaverkefni 4. önn | LHÖ 208

Lokaverkefni á 4. önn er sjálfstætt einstaklingsverkefni að eigin vali unnið í samráði við leiðbeinanda. Hér er um að ræða kvikmyndaverk af einhverju tagi; 8 til 20 mínútur að lengd. Öll námskeið annarinnar utan kjarnafög samtvinnast þessu verkefni. Yfirleiðbeinandi lokaverkefnis fundar reglulega með nemendum á undirbúningstímabilinu og veitir handritaráðgjöf og ráðleggingar varðandi leikstjórn. Að loknum tökum taka við þrír eftirvinnsluáfangar; klipping, hljóðvinnsla og litaleiðrétting og tengjast þeir allir útskriftarverkinu. Þar njóta nemendur fulltingis yfirleiðbeinanda en fá jafnframt ráðleggingar frá sérfræðingum á sviði klippingar, hljóðvinnslu og litaleiðréttingar allt með það að markmiði að skapa fagmannlegt útskriftarverkefni.

Samtíminn | SAT 102

Fjallað er um kvikmyndagerð nútímans. Hvaða stefnur og straumar hafa verið ríkjandi síðasta áratuginn, hvað er að gerast núna og hvert virðist stefna í nánustu framtíð. Á námskeiðinu er mikið lagt upp úr þátttöku nemenda í að rannsaka og finna svör við þessum spurningum. Hver og einn þeirra þarf að halda kynningu með myndsýnishornum, þar sem þeir fjalla um áhrifavalda í samtímanum.

Samstarf milli deilda | SAM 403

Nemendur í öllum deildum þurfa á hverri önn að skila 1 einingu í samstarfi við aðrar deildir. Markmiðið er að hver deild hafi aðgengi að öllum hinum og upp úr því þróist skapandi samband.

Kvikmyndasaga 4 | KMS 402

Helstu kvikmyndir sögunnar kynntar, sýndar og ræddar. Sýndar eru tíu myndir á hverri önn, alls 40 kvikmyndir. Hver önn er hugsuð sem sneiðmynd af sögunni. Myndirnar eru sýndar að mestu í tímaröð og ná allt frá þögla tímabilinu og fram á seinni hluta tuttugustu aldar.

Samningar og kjör | VER 101

Námskeiðinu er ætlað að undirbúa nemendur fyrir þáttöku á atvinnumarkaði. Fjallað er um stofnun fyrirtækja, helstu starfssamninga og skyldur sem þeim fylgja fyrir verktaka og verkkaupa, eða launþega og vinnuveitanda. Farið er yfir opinber gjöld sem standa þarf skil á s.s. virðisaukaskatt, lífeyrissjóðsgjöld, félagsgjöld o.s.fv. Nemendur vinna í hópum, og þróa sínar eigin viðskiptahugmyndir og vinna viðskiptaáætlanir. Á námskeiðinu verður einnig farið í verkefnastjórn, áætlanagerð og styrkumsóknir í samkeppnissjóði. Sérstaklega verða tekin fyrir dæmi úr myndmiðlaiðnaðinum á Íslandi.

Umsagnir nemenda

Árin mín tvö í Kvikmyndaskólanum voru ómetanleg og það kom ekki sá dagur sem ég tímdi að missa af. Ég lærði nýja hluti á hverjum degi jafnt frá kennurum, sem voru margir hverjir þeir allra færustu í faginu og ekki síður frá samnemendum mínum. Þegar ég byrjaði kunni ég lítið sem ekkert, en allt frá því ég útskrifaðist hef ég haft meira en nóg að gera í faginu. Allt frá tónlistarmyndböndum, krakkafréttum og yfir í bíó.

Erla Hrund Halldórsdóttir, Útskrifuð vorið 2014
Ég útskrifaðist af Skapandi Tækni vorið 2010 og hef verið að vinna við kvikmyndagerð síðan. Þessi tvö ár í Kvikmyndaskólanum reyndust mér mjög vel, skemmtileg og fræðandi. Skólinn er kjörinn vettvangur til að prufa sig áfram, undir góðri leiðsögn fagfólks úr bransanum. Maður öðlast fljótt grunnþekkingu á flestum sviðum kvikmyndagerðar – t.d hljóðvinnslu, kvikmyndatöku, lýsingu, klippingu, framleiðslu o.m.fl. Skólinn skilaði mér miklu og góðu tengslaneti, sem ég tel nauðsynlegt að hafa til að koma sér af stað í bransanum. Ég mæli hiklaust með þessu námi fyrir alla þá sem hafa áhuga á að starfa við kvikmyndagerð í framtíðinni.
Matthías Hálfdánarson, Útskrifaður vorið 2010
Kvikmyndaskóli Íslands