Leikstjórn er önnur aðalnámsgrein deildarinnar. Nemendur eru kynntir fyrir starfi leikarans og annarra náinna samstarfsmanna leikstjórans, eins og myndatökumanni, leikmyndahönnuði, hljóðhönnuði ofl. og fá þannig reynslu til að þroskast sem leikstjórar, þ.e. listrænir yfirmenn kvikmyndaverka.
Námið gefur nemendum einnig góða innsýn í hlutverk og verkefni framleiðandans og kynnir þá fyrir ýmsum stöðugildum í framleiðslu og hver ábyrgð hvers hlutverks er. Leikstjórnarþjálfunin er markviss og stýra nemendur nokkrum verkefnum á hverri önn ýmist í samvinnu eða upp á eigin spýtur.
Markmiðið er að við útskrift sé nemandi fær um að gera eigið kvikmyndaverk og hafi góðan skilning á grundvallarlögmálum kvikmyndagerðar. Mikilvægt er að nemendur læri að vinna vel saman en séu engu að síður sjálfstæðir og vandvirkir.
Atvinnutækifæri eru fjölbreytt að loknu námi og þeim fer fjölgandi þar sem þekking á myndmiðlum og kunnátta í leikstjórn- og framleiðslu verður æ verðmætari. Námið er fyrst og fremst verklegt. Hver nemandi vinnur stuttmyndir, auglýsingar, tónlistarmyndbönd, heimildamyndir, leikna sjónvarpsþætti og skemmtiþætti af ýmsum toga.
Nemendur eru teknir inn í deildina á hverju misseri og valdir með sérstökum inntökuviðtölum. Leitað er eftir leiðtogum með sterka sýn, skipulagshæfileika og listræna taug. Við deildina starfar fjöldinn allur af leiðbeinendum og kennurum sem hafa það markmið að miðla af þekkingu sinni og reynslu.
Fjallað er um hlutverk og stöðu kvikmyndaleikstjórans sem handleiðslu- og samstarfsmanns leikara; samband hans og leikarans, á hverju það samband byggir og hvernig líklegast er að það beri sem mestan árangur. Unnið er í grunnþáttum þjálfunar þar sem nemendur kynnast tækniþjálfun leikarastarfsins, æfingum og aðferðum til að byggja á persónusköpun, innra líf og hvernig það tekur á sig form í gerðum og hegðun persóna.
Hlutverk framleiðandans er kynnt; hvernig hann er drifkraftur kvikmyndaverka, hvernig „góðar“ hugmyndir eru fundnar og þeim hrint í framkvæmd. Fjallað er um hlutverkaskiptingu framleiðslu- og tökuteymis, ábyrgðarsvið, skipulag og vinnuferla framleiðanda og framleiðslustjóra. Kennd eru undirstöðuatriði í notkun á handrita- og skipulagsforriti og farið yfir hvernig framleiðslumappa er unnin og samsett. Nemendur aðstoða einnig nemendur á 2. önn í LSJ 105 við framleiðslu á sjónvarpsmynd og fá þannig innsýn í starfshætti á tökustað.
Á námskeiðinu er fjallað um ýmis grundvallarlögmál hefðbundinnar handritsgerðar í kvikmyndagerð, m.a. dramatíska uppbyggingu, form og stíl, samtöl, söguþráð og endi. Nemendur læra helstu grundvallaratriði í notkun handritsforrita.
Í þessu námskeiði er eðli og gerð myndmálsins rannsakað. Mynddæmi eru greind og skoðað er hvaða merkingu má leggja í myndstærðir, sjónarhorn, samsetningu myndskeiða, tákn og skilaboð. Námskeiðið er einnig verklegt þar sem nemendum gefst m.a. tækifæri til að útfæra eigin senur. Auk þess verður kynnt undirbúningsferli leikstjórans fyrir tökur, m.a. við gerð skotlista.
Í þessu námskeiði er fjallað um hlutverk, sögu, tísku og megingerðir tónlistarmyndbanda og þau skoðuð frá ýmsum sjónarhornum. Nemendur vinna í hópum að gerð tónlistarmyndbanda, auk þess að öðlast færni í klippingu og myndvinnslu.
Í þessu námskeiði er fjallað um auglýsingagerð. Sérstök áhersla er lögð á að kynna eðli, tilgang og sérstöðu auglýsinga sem kvikmyndaforms, þar sem beita þarf mikilli nákvæmni í myndmáli til að koma ákveðnum skilaboðum á framfæri. Nemendur vinna í hópum að gerð auglýsinga.
Nemendur vinna 5 til 8 mínútna einstaklingsverkefni að eigin vali undir leiðsögn leiðbeinanda. Markmiðið er að verkefnið sé fullunnið kvikmyndaverk af einhverju tagi. Áhersla er lögð á að nemandi vinni með eigin hugmyndir og byggi á þeirri reynslu í vinnslu kvikmynda sem hann hefur fengið í öðrum námskeiðum annarinnar.
Námskeiðið er byrjunarnámskeið á 1. önn og markmið þess er að kenna nemendum grunnatriði í framleiðslu kvikmynda og meðhöndlun og notkun tækja- og tæknibúnaðar í kvikmyndagerð. Jafnframt er farið yfir grunnatriði myndmálsins.
Nemendur í öllum deildum þurfa á hverri önn að skila 1 einingu í samstarfi við aðrar deildir. Markmiðið er að hver deild hafi aðgengi að öllum hinum og upp úr því þróist skapandi samband.
Helstu kvikmyndir sögunnar kynntar, sýndar og ræddar. Sýndar eru tíu myndir á hverri önn, alls 40 kvikmyndir. Hver önn er hugsuð sem sneiðmynd af sögunni. Myndirnar eru sýndar að mestu í tímaröð og ná allt frá þögla tímabilinu og fram á seinni hluta tuttugustu aldar.
Haldið er áfram að fara yfir helstu grunnþætti kvikmyndaleikstjórnar með sérstakri áherslu á vinnu með leikurum. Námskeiðið er aðallega verklegt og eru ýmsar aðferðir, tól og tæki kynnt fyrir nemendum sem geta nýst þeim við slíka vinnu. Nemendur læra að gera ítarlegar áætlanir um eigið vinnuferli í gegnum æfingar með bæði leikaranemum og atvinnuleikurum.
Sérstök áhersla er lögð á hlutverk framkvæmda- og framleiðslustjórans á undirbúnings-, töku- og eftirvinnslutímabili. Einnig er farið yfir hlutverk aðstoðarleikstjóra og tökustaðastjóra. Haldið er áfram að vinna með skipulagsforrit. Nemendur fá fullbúin handrit, sem þeir brjóta upp í tökuáætlun og kostnaðaráætlun. Þeir læra auk þess að gera samninga við starfsfólk, leikara og aðra. Námskeiðið er beintengt námskeiðinu LSJ 105, þar sem hópurinn framleiðir leikinn sjónvarpsþátt í samvinnu við aðrar deildir skólans og utanaðkomandi fagfólk.
Framhald af HAN 101 þar sem haldið er áfram að fjalla um meginreglur og vinnubrögð við handritsskrif. Unnið er með hefðbundin lögmál dramatískrar uppbyggingar og farið nánar í persónusköpun, fléttu og atburðarás. Skoðaðar eru mismunandi gerðir handrita, svo sem kvikmyndahandrit í fullri lengd, stuttmyndahandrit, handrit fyrir leikið sjónvarpsefni o.fl. Hver nemandi byrjar að vinna handrit að 7 til 12 mínútna langri stuttmynd, sem verður framleidd í STU 106 á þriðju önn.
Yfirlitsáfangi með áherslu á tengsl kvikmynda og myndlistar. Hvað geta kvikmyndir lært af myndlistinni? Einkenni ýmissa myndlistartímabila eru skoðuð. Dæmi eru tekin úr kvikmyndasögunni sem sýna náin tengsl kvikmynda við ákveðin myndverk eða myndlistarmenn, og hvernig myndlist hefur nýst kvikmyndagerðarmönnum og orðið þeim innblástur fyrir kvikmyndaverk.
Fjallað er um allar helstu tegundir sjónvarpsþátta; skemmtiþætti, viðtalsþætti, matreiðsluþætti, ferðaþætti, raunveruleikaþætti, getraunaþætti, barnaefni, fréttir, fréttaskýringaþætti, leikið sjónvarpsefni, heimildarmyndir o.s.frv. Nemendum verða kynntar helstu forsendur sem liggja að baki dagskrárgerðar í sjónvarpi og samspili tegundar þátta, sýningartíma og markhóps. Þá verða „format“-þættir síðustu ára sérstaklega skoðaðir og reynt að skilgreina hvað liggur að baki því að hugmyndir verði alþjóðlegar. Nemendur vinna hugmyndavinnu að sjónvarpsþáttum og undirbúa, í samstarfi við 3. önn leiklistardeildar, kynningarefni sem nýtist til að „selja“ fulltrúum íslenskra sjónvarpsstöðva hugmyndirnar.
Nemendur vinna tvo 15–18 mínútna kynningarþætti („pilots“) fyrir leiknar sjónvarpsþáttaraðir. Mynduð eru tvö teymi sem vinna samhliða hvort að sínum þættinum. Teymin eru skipuð nemendum úr öllum deildum skólans og utanaðkomandi fagfólki. Ráðinn er leikstjóri og kvikmyndatökumaður fyrir sitthvort teymið, en aðrir listrænir stjórnendur eru fagfólk sem leiðbeina báðum hópunum við handritsgerð, framleiðslu, leikmyndahönnun, hljóðupptöku og hljóðvinnslu, klipp og eftirvinnslu. Nemendur á 2. önn leikstjórnar- og framleiðsludeildar skipa helstu stöður framleiðsluteymanna, þ.á m. framleiðslustjóra, tökustaðastjóra og aðstoðarleikstjóra. Þeir sjá um alla þætti framleiðslunnar, t.a.m. gerð framleiðslu- og tökuáætlunar, fjárhagsáætlunar og uppgjör, samninga við leikara og skipulag tökuliðs og eftirvinnslu. Nemendur á 1. önn deildarinnar aðstoða við önnur störf framleiðslunnar. Nemendur á 2. önn handritsdeildar skrifa handrit þáttanna, 2. önn tæknideildar sér um leikmynd auk þess að annast hljóðupptöku og hljóðvinnslu. Nemendur á 3. önn tæknideildar aðstoða tökumenn með „gripp“ og ljós en sjá að auki um klippingu og eftirvinnslu. Nemendur á 3. önn leiklistardeildar leika helstu hlutverk, en einnig eru ráðnir inn 1–2 atvinnuleikarar í hvern þátt til að leika á móti nemendum. Markmiðið með námskeiðinu er að nemendur öðlist reynslu af að vinna með fagfólki að gerð leikins sjónvarpsefnis og fái innsýn í verkaskiptingu og mikilvægi samvinnu í stóru framleiðsluteymi.
Námskeiðið er framhaldsnámskeið frá TÆK 106. Markmiðið er að styrkja enn frekar grunnþekkingu nemenda á helstu sviðum kvikmyndagerðar. Hver nemandi gerir síðan mynd sem á að sýna persónulegan stíl og færni nemanda á hans áhugasviði. Myndin á að geta staðið sem kynningarmynd um nemandann.
Nemendur í öllum deildum þurfa á hverri önn að skila 1 einingu í samstarfi við aðrar deildir. Markmiðið er að hver deild hafi aðgengi að öllum hinum og upp úr því þróist skapandi samband.
Helstu kvikmyndir sögunnar kynntar, sýndar og ræddar. Sýndar eru tíu myndir á hverri önn, alls 40 kvikmyndir. Hver önn er hugsuð sem sneiðmynd af sögunni. Myndirnar eru sýndar að mestu í tímaröð og ná allt frá þögla tímabilinu og fram á seinni hluta tuttugustu aldar.
Haldið er áfram með þá vinnu sem lögð hefur verið til grundvallar í fyrri leikstjórnaráföngum. Nemendur þróa áfram eigin aðferðir við vinnu með leikurum auk þess sem kynntar eru helstu stefnur í kvikmyndaleik og leikaraleikstjórn. Verkefni námskeiðsins felst í að æfa senur úr kvikmyndahandritum, leikstýra leikurum í gegnum senurnar og taka þær upp. Þá er samspil leikara og myndavélar skoðað og kynnt hvaða lögmál gilda um stöður, sjónlínur og hvaða áhrif staðsetning myndavélar hefur á leik og hreyfingu leikara. Fjallað er um aðra lykilþætti kvikmyndaleikstjórnar, eins og samstarf við tökumann og annað náið samstarfsfólk.
Á námskeiðinu er hlutverk framleiðandans á upphafs- og lokastigi framleiðslu skoðað nánar og fjallað ítarlega um verkefnaþróun og framleiðslu- fjármögnunar- fjárstreymis- og kostnaðaráætlanir fyrir mismunandi framleiðsluverkefni. Einnig er fjallað um gerð samframleiðslusamninga, sölusamninga, markaðssetningu, dreifingu og sölu. Nemendur vinna í hópvinnu að gerð umsóknar til Kvikmyndamiðstöðvar.
Unnið er áfram að þróun stuttmyndahandrits. Farið er nánar í að styrkja persónusköpun og samtöl, jafnframt því að fylla enn betur upp í senu- og atburðalýsingar. Nemendur gera handrit að 7 til 12 mínútna langri stuttmynd sem verður framleidd síðar á önninni.
Frjáls tími nemenda til að stunda tilraunir. Nemendur eru hvattir til að rannsaka nýjar leiðir til listsköpunar og tjáningar og gera tilraunir með frásagnarformið. Nemendur vinna sjálfstætt og kynna vinnu sína í lok námskeiðs. Verkið skal vera 5 til 10 mínútna langt og er nemendum frjálst að nota alla þá tækni og aðferðir sem þeir vilja nýta í sköpun sinni; þetta má vera gjörningur, listaverk, tónverk, leikur og tjáning, í myndformi eða lifandi uppákoma eða allt í senn. Nemendur eru hvattir til að vinna saman að samsetningu og framsetningu verkanna á lokasýningu námskeiðs.
Í námskeiðinu er fyrirbærið „fjölkameruvinnsla“ í sjónvarpi skoðað nánar. Rannsakaðir eru innlendir og erlendir þættir sem teknir eru upp á þennan hátt og farið ítarlega í vinnsluferli slíkra þátta. Í kjölfarið vinna nemendur 20 til 25 mínútna sjónvarpsþátt undir stjórn leiðbeinanda. Hópurinn vinnur saman að öllum þáttum framleiðslunnar, frá hugmyndavinnu til útsendingar, og skiptir með sér hlutverkum. Sent er út frá myndveri í gegnum myndstjórn og miðað er við að þátturinn sé fullfrágenginn með grafík, innslögum og tilbúinn til útsendingar. (Ath. Hér er átt við annað efni en leikið).
Nemendur leikstýra og framleiða 7 til 12 mínútna stuttmynd eftir eigin handriti. Nemendur vinna tökuáætlun, skotlista, fjárhagsáætlun, samninga, taka upp, klippa og gera stuttmynd tilbúna til sýningar. Ætlast er til að nemendur geti kynnt verkefni sitt strax í fyrsta tíma. Námskeiðið hvetur nemendur til að halda áfram að skoða og þróa eigin aðferðafræði og stíl sem höfundar og stjórnendur.
Fjallað er um myndmál og myndbyggingu með því að skoða og skilgreina atriði úr kvikmyndum frá ýmsum tímum. Í samráði við leiðbeinendur sviðsetja nemendur senu úr kvikmynd og skoða hvernig myndmálið hefur áhrif á framgang hennar og upplifun áhorfandans á henni.
Nemendur í öllum deildum þurfa á hverri önn að skila 1 einingu í samstarfi við aðrar deildir. Markmiðið er að hver deild hafi aðgengi að öllum hinum og upp úr því þróist skapandi samband.
Helstu kvikmyndir sögunnar kynntar, sýndar og ræddar. Sýndar eru tíu myndir á hverri önn, alls 40 kvikmyndir. Hver önn er hugsuð sem sneiðmynd af sögunni. Myndirnar eru sýndar að mestu í tímaröð og ná allt frá þögla tímabilinu og fram á seinni hluta tuttugustu aldar.
Námskeiðið er tengt lokaverkefni annarinnar þar sem sameiginlega er farið yfir leikstjórnarlegar útfærslur á hverju verkefni fyrir sig og þær skoðaðar jafnt út frá handriti og persónulegri afstöðu leikstjórans. Ætlast er til að nemendur nýti sér þær aðferðir sem þeir hafa lært og þróað varðandi vinnu með leikara og myndræna frásögn.
Námskeiðið er upprifjun á kennsluefni fyrri framleiðsluáfanga og miðar að því að nemendur geti undirbúið og unnið lokaverkefni sín eftir viðurkenndum verkferlum framleiðandans og framleiðslustjórans. Einnig að nemendur notist við þau skipulagsforrit, framleiðslueyðublöð og önnur vinnslutól sem hafa verið kynnt til sögunnar. Leiðbeinandi fer nákvæmlega yfir verkefni hvers og eins og aðstoðar við skipulag.
Námskeiðið er hugsað sem stuðningur við útskriftarverkefni nemenda. Nemandi getur bæði skrifað handritið sjálfur eða fengið það frá öðrum, en ætlast er til að hann komi með skapandi hætti að þróunarferli þess. Nemendur vinna og kynna hugmyndaskissur og handritsdrög að kvikmyndaverki og er áhersla lögð á söguþráð og frásagnaraðferð, atburðarás og uppbyggingu, vel mótaðar persónur og samtöl. Jafnframt er lögð áhersla á að nemendur vinni út frá og þrói enn frekar sinn persónulega stíl.
Námskeiðið er stoðnámskeið við útskriftarverkefni nemenda LOK 208. Í upphafi annar fer umsjónarmaður námskeiðs yfir það með útskriftarnemendum hvar þeir telji sig helst þurfa aukinn stuðning í framleiðslu lokamyndar. Það getur tengst öllu ferlinu, allt frá handritsvinnu til lokafrágangs í eftirvinnslu. Stuðningurinn getur verið einstaklingsbundinn en best nýting fæst ef hópurinn kemur sér saman um þau svið þar sem hann telur sig þurfa frekari sérfræðiaðstoð og leiðbeiningar.
Fjallað er um hin mörgu og ólíku form heimildarmynda, uppruna þeirra og sögu. Sérstök áhersla er lögð á að rannsaka mismunandi aðferðafræði við meðhöndlun viðfangsefna. Fjallað er um hugmynda- og handritsvinnu, val á aðferðum við upptökur og eftirvinnsluferlið og markaðssetningin rædd með hina ýmsu möguleika til hliðsjónar. Verkefnavinna er mikilvæg á námskeiðinu og felur í sér styttri verkefni og svo eina stutta heimildarmynd þar sem reynir á vandvirkni og einbeitingu nemenda.
Um er að ræða einstaklingsverkefni þar sem nemandi þróar, framleiðir og leikstýrir 8 til 15 mínútna löngu kvikmyndaverki að eigin vali. Verkefnið er jafnframt útskriftarverkefni nemanda og er mikil áhersla lögð á vönduð vinnubrögð í öllum þáttum vinnslunnar. Nemandinn skal sjálfur hafa yfirumsjón með verkefninu og sinna hlutverki yfirframleiðanda og leikstjóra, en er hvattur til að fá með sér vel starfandi og faglegt framleiðslu- og tökuteymi þar sem öllum þáttum framleiðslunnar eru gerð góð skil. Nemendur vinna undir stjórn leiðbeinanda.
Fjallað er um kvikmyndagerð nútímans. Hvaða stefnur og straumar hafa verið ríkjandi síðasta áratuginn, hvað er að gerast núna og hvert virðist stefna í nánustu framtíð. Á námskeiðinu er mikið lagt upp úr þátttöku nemenda í að rannsaka og finna svör við þessum spurningum. Hver og einn þeirra þarf að halda kynningu með myndsýnishornum, þar sem þeir fjalla um áhrifavalda í samtímanum.
Nemendur í öllum deildum þurfa á hverri önn að skila 1 einingu í samstarfi við aðrar deildir. Markmiðið er að hver deild hafi aðgengi að öllum hinum og upp úr því þróist skapandi samband.
Helstu kvikmyndir sögunnar kynntar, sýndar og ræddar. Sýndar eru tíu myndir á hverri önn, alls 40 kvikmyndir. Hver önn er hugsuð sem sneiðmynd af sögunni. Myndirnar eru sýndar að mestu í tímaröð og ná allt frá þögla tímabilinu og fram á seinni hluta tuttugustu aldar.
Námskeiðinu er ætlað að undirbúa nemendur fyrir þáttöku á atvinnumarkaði. Fjallað er um stofnun fyrirtækja, helstu starfssamninga og skyldur sem þeim fylgja fyrir verktaka og verkkaupa, eða launþega og vinnuveitanda. Farið er yfir opinber gjöld sem standa þarf skil á s.s. virðisaukaskatt, lífeyrissjóðsgjöld, félagsgjöld o.s.fv. Nemendur vinna í hópum, og þróa sínar eigin viðskiptahugmyndir og vinna viðskiptaáætlanir. Á námskeiðinu verður einnig farið í verkefnastjórn, áætlanagerð og styrkumsóknir í samkeppnissjóði. Sérstaklega verða tekin fyrir dæmi úr myndmiðlaiðnaðinum á Íslandi.